NONNAHÚS

Nonnahús

Flýtilyklar

Saga hússins

Nonnahús er eitt elsta hús Akureyrar, byggt upp úr 1850. Jón Hjaltason lýsir sögu hússins í bókinni „Nonni og Nonnahús“.

Jósef Grímsson gullsmiður byggði húsið og bjó í því til 1858. Næsti eigandi hét Páll Magnússon en hann flutti til Akureyrar úr Hörgárdal til að stunda kaupmennsku. Páli gekk illa að koma undir sig fótunum og kom að því að gera átti hann gjaldþrota en Magnús faðir hans kom honum til bjargar. Páll flutti úr Pálshúsi, sem svo var kallað, í Kjarna þar sem hann bjó alla tíð síðan. Páll reyndi að selja húsið en það gekk illa og fór svo að Páll neyddist til að leigja húsið.

Árið 1861 bjuggu tvær fátækar fjölskyldur í húsinu. Annar fjölskyldufaðirinn hét Jón Jónsson og kallaði sig Jón Borgfirðing enda ættaður úr Borgarfirði og kona hans hét Anna Guðrún Eiríksdóttir. Elsti sonur þeirra, Finnur, varð seinna prófessor í norrænum fræðum í Kaupmannahöfn og víðkunnur fræðimaður. Hann var gerður að heiðursborgara Akureyrar. Yngri sonur Jóns og Önnu hét Klemens en hann varð bæjarfógeti á Akureyri, alþingismaður og ráðherra.

Um vorið 1863 flutti Vilhelmína Lever í Nonnahús. Vilhelmína var litrík persóna sem hafði alla tíð farið sínar eigin leiðir. Hún var fráskilin og átti son í lausaleik. Vilhelmína rak veitingasölu og gistiheimili í húsinu. Þegar fyrstu bæjarstjórnarkosningarnar fóru fram árið 1863 var Vilhelmína mætt fyrst á kjörstað en konur fengu ekki kosningarétt fyrr en 19 árum síðar. Slíkir smámunir stöðvuðu hins vegar ekki kjarnakonuna Vilhelmínu.

Árið 1865 flutti Elín Guðrún Gunnarsen saumakona í húsið en hún var einstæð með þrjú börn eftir að maður hennar hafði flúið land. Elín bjó eitt ár í húsinu.

Þann 7. júní 1865 flutti Sveinn Þórarinsson skrifari amtmanns og kona hans Sigríður Jónsdóttir í húsið ásamt börnum sínum Björgu, Jóni, Ármanni og Friðrik og vinnufólki. Jón Stephán betur þekktur sem Nonni, var þá 7 ára gamall. Sveinn leigði húsið af Páli en honum var um megn að kaupa húsið þar sem fjölskyldan var mjög fátæk. Sveinn lést aðeins 48 ára gamall þegar Nonni var 11 ára og stóð þá Sigríður ein eftir með fimm börn. Tvö yngstu börnin, Friðrik og Sigríður voru tekin í fóstur, Björg, Bogga, var send í vist til Kaupmannahafnar og bræðrunum Nonna og Manna bauðst að halda til Frakklands til náms við kaþólskan menntaskóla. Sigríður hélt síðan til Vesturheims þar sem hún bjó til dauðadags og tvö yngstu börnin hennar fluttu einnig vestur um haf. Nonni varð síðar heimsfrægur barnabókahöfundur og í dag er æskuheimili hans þekkt undir nafninu Nonnahús. Nonni var gerður að heiðursborgara Akureryar og það er athyglisvert að tveir af sjö heiðursborgurum Akureyrar hafi búið í litla svarta timburhúsinu við Aðalstræti.

Fjölnmargar fjölskyldur bjuggu í húsinu eftir að fjölskylda Nonna hvarf á braut og er talið að síðasti ábúandinn hafi flutt þaðan 1944.

Þegar Zontaklúbbur Akureyrar var stofnaður 1949 kom fljótlega upp sú hugmynd að heiðra minningu Jóns Sveinsson, Nonna. Nonnahús var á þessum tíma illa farið og hriplekt. það tilheyrði húsi (Zontahúsinu) sem stendur við Aðalstræti og hafði verið byggt um aldamótin 1900. Nonnhús hafði því orðið nokkurs konar bakhús og var notað sem verkstæði og geymsla. Eigandi húsanna voru hjónin Sigríður Davíðsdóttir og Zóphónías Árnason. Árið 1952 gáfu hjónin Zontaklúbbi Akureyrar Nonnhús þannig að gera mætti þar minjasafn um einn þekktasta Akureyring fyrr og síðar. Konur í Zontaklúbbnum hófust strax handa og með miklum dugnaði og hjálp góðra manna tókst þeim að opna safnið 16. nóvember 1957. Safnið hefur verið starfrækt allar götur síðan og ófáir gestir hafa lagt þangað leið sína.

 

 

 

Framsetning efnis

  • A-
  • A+

Innskráning

moya - Útgáfa 1.10 RC1 2006 - Stefna ehf